Afsakið meðan ég æli

Þarna talar Vilhjálmur Egilsson með rassgatinu, eins og talsmönnum sérhagsmunaklíkusamtaka hættir til. Ísland var bananalýðveldi, eða "nyrsta Afríkuríkið" áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Heldur karluglan í alvöru að Afríkuríki séu þekkt fyrir að hækka skatta á hina efnameiri til þess að reyna að jafna lífskjör? Nei, svoleiðis hagfræði hefur frekar verið kennd við Skandinavíu.

Að arðræna almenning til að fáeinir glæpamenn geti auðgast ógurlega er hagfræði sem frekar hefur verið tengd við einræðisherra Afríku og, merkilegt nokk, félaga Vilhjálms í Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Segir Ísland nyrsta Afríkuríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráða eintómir hálfvitar ríkjum í flugstöðinni?

Hvers lags andskotans undirlægjuháttur og fíflagangur er það að taka hvalkjöt úr sölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, bara af því að einhverjir fasistafáráðlingar í öðrum löndum leyfa það ekki?!? Ekki hef ég orðið var við að Svíar hætti að selja snus á Arlanda, þó það sé bannað að flytja það til Íslands. Megum við búast við því næst að konur verði bannaðar í flugstöðinni, nema þær klæðist búrkum, bara af því að öðruvísi mega þær ekki vera í kringum talíbana?!?
Vinsamlegast takið hausinn út úr rassgatinu og ef þið sjáið þá til sólar, afturkallið líka þá heimskulegu hugmynd að fjarlægja nánast allar íslenskar vörur (nammið) úr komufríhöfninni!!!


mbl.is Hætt að selja hvalkjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigerð aulafrétt hjá þessum hörmulega héraðsfréttamiðli

"Þrátt fyrir að engin sérstök veðurblíða leiki um landsmenn leiki við landsmenn á jóladag..."

Skv. vedur.is er einmuna veðurblíða um nánast allt land, nema kannski rétt við nefið á héraðsfréttagerðarmönnum Morgunblaðsins, sem augljóslega vita ekki lengra en nef þeirra nær.


mbl.is Göngutúr á jóladag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var þessum glæpafyrirtækjum bjargað?

Mér finnst alltaf vera að koma betur og betur í ljós það sem margir óttuðust í upphafi, að það var algert glapræði af ríkinu að reyna að "bjarga" þessum glæpafyrirtækjum þegar þau hrundu. Að sjálfsögðu átti að láta Landsbankann, Glitni og Kaupþing sigla sinn sjó og láta kröfuhöfum eftir að reyna að sækja í rústirnar. Passa svo bara upp á að innistæðukröfur hefðu algeran forgang.
mbl.is Ábyrgðin hjá gömlu bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grínfréttir Feykis rata á mbl.is

Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem mbl.is birtir grínfrétt af feykir.is eins og um heilagan sannleik sé að ræða. Reyndar hafa íslenskir fjölmiðlar löngum farið frjálslega með sannleikann, engin tilviljun að orðið fréttagerðarmaður hefur náð að festast við þá sem þar starfa. Annars er það bara hið besta mál að mbl bjóði upp á smá léttmeti í bland við þunglyndislegar fréttir af þjóðmálum, það væri fínt ef þeir myndu þá verða duglegri að vitna í t.d. Baggalút framvegis en minna í pólitíska framapotara.
mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hummm

Þessi (ó)lög eru klárlega sett af heilum hug og í góðri trú, en eru því miður í besta falli einfeldningsleg.
Hugsjónin á bak við þau er góð, að reyna að sporna við mansali, en ég sé bara ekki vitglóru í því að hægt sé að setja "fortakslaust bann" við einhverri starfsemi á þeirri forsendu að mansal "tíðkist" í greininni (e.t.v. í öðrum löndum?).
Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig ástandið hefur verið á nektardansstöðum hér á landi, en maður getur ekki annað en vonað að þar hafi verið farið að lögum, þó auðvitað sé ástæða til að óttast annað.
Frekar en "fortakslaust bann" hefði ég viljað sjá stranga löggjöf og eftirlit.
Eða hefur kannski líka komið til tals "fortakslaust bann" við virkjanaframkvæmdum, húsbyggingum í Reykjavík og kínversku nuddi, þar sem það er margsannað að mansal hefur verið stundað í þessum greinum hér á landi. Hvað með að banna fatasaum? Barnaþrælkun er landlæg í þeirri iðju víða um heim.

Þessi lög munu alls ekki ná sínum göfuga tilgangi.
Hann næst miklu fremur með allsherjar hugarfarsbreytingu í átt að bættu siðferði í atvinnulífinu.


mbl.is Alþingi bannar nektardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinur er sá er til vamms segir

Mín kæra gráðuga, heimska, heimtufreka þjóð.
Reyndu að troða því inn í þverhausinn á þér að Norðmenn eru okkar nánasta frændþjóð og vilja okkur Íslendingum vel.
Í Noregi er okkur alltaf vel tekið, á köflum jafnvel betur en við eigum skilið því við höfum ekki alltaf komið vel fram við þá.

Við Íslendingar erum með óttalega unglingaveiki í samfélagi þjóðanna, enda rétt búin að slíta barnsskónum.
Nú erum við, eins og unglingum sæmir, búin að drulla gjörsamlega upp á bak í einni fyllerísferðinni, þrátt fyrir varnaðarorð eldri og vitrari þjóða.
Og auðvitað skríðum við vælandi í faðm foreldranna og ætlumst til að þau borgi fyrir skemmdirnar sem við ullum og að þau "láni" okkur fyrir aðeins meira brennivíni.
En viti menn, góðir foreldrar kunna að segja "Nei!".


mbl.is Ekki frekari lán til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

H.F.F.

Mér finnst gjörsamlega ÓÞOLANDI að við skulum sitja uppi með skuldir sem einhverjir djöfulsins glæpamenn stofnuðu til og stungu svo öllu gullinu undan (því sem þeir ekki borðuðu). 
Það er eiginlega tragíkómískt að horfa upp á Sjálftökuflokkinn kveina "Við borgum ekki, við borgum ekki", meðan hinir svokölluðu "afturhaldskommatittir" virðast ekki sjá aðra leið en að gangast undir þessa afarkosti.

Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik, að Sjálfstæðismenn, sem halda að þjóðin geti lifað á innflutningi eingöngu, myndu stofna alþjóðaviðskiptum landsins í hættu. Fyrr myndu þeir selja skrattanum bæði sál sína og ömmu. Þeir halda bara að við Íslendingar séum svo miklir einfeldningar að trúa þvættingnum í þeim. Ég er smeykur um að þeir hafi rétt fyrir sér þar.

Satt að segja finnst mér alþjóðamálefni Íslands þessa stundina vera alltof mikilvæg til að láta stjórnmálamönnum þau eftir.
Ég get ekki varist þeirri hugsun, miðað við hvernig skriðið er fyrir erlendum stórþjóðum núna, að ef stjórnmálamenn nútímans hefðu verið við völd síðustu 50 ár, þá værum við í besta falli með 4 mílna landhelgi í dag.
Mér gæti ekki staðið meira á sama þótt lánalínur okkar erlendis lokist. Það voru erlend lán sem settu þjóðina á hausinn og alveg óþolandi hvað margir virðast halda að allt verði gott ef við bara fáum aðeins meiri lán.

Það er barnaskapur að trúa þeim hræðsluáróðri að við verðum sett í eitthvert allsherjar viðskiptabann, þótt við borgum ekki erlendum þjóðum hverja einustu krónu sem þær hafa tapað á vipskiptum við íslensk glæpafyrirtæki.
Halda menn kannski að ítalska ríkið ábyrgist öll viðskipti mafíunnar?
Að breska ríkið hafi greitt allar erlendar skuldir Berings bankans?
Eða það bandaríska allar Enron skuldirnar?
Líklega ekki.
Það sem þessar þjóðir gera hins vegar, er að elta uppi glæpamennina, refsa þeim og reyna að lágmarka skaðann með því að hafa uppi á þýfinu.
Hér er þessu alveg öfugt farið.

Ég held að við hefðum átt að fordæma Breta aðeins minna fyrir að setja hryðjuverkalög á þessi glæpafyrirtæki og jafnvel bara setja slík lög sjálf.
Það hefði örugglega gefið betri raun en bráðabirgðalögin, sem slógu skjaldborg um glæpamennina á kostnað þjóðarinnar.
Við eigum að sjálfsögðu að borga skuldir OKKAR, en EKKI ANNARRA.
Hér á landi hefur það allt of lengi tíðkast, sem þekkist varla á meðal siðmenntaðra þjóða, að lánardrottnar hafa endalaust skotveiðileyfi á einhverja blásaklausa aðstandendur, en fjárglæframenn leika lausum hala og halda áfram að fremja sína glæpi.
Nú er öll þjóðin orðin ábekkingur.
Við því er ekki nema eitt að segja.
Helv... F... F...


Maður ársins?

Þó ég hafi sjaldan deilt pólitískum skoðunum með Steingrími Jóhanni, þá tel ég ekki annað hægt en að dást að þrekinu og styrknum í manninum.
Ég tek því undir með þeim mikla snillingi, Jóhannesi á Víkurblaðinu, að Steingrímur á fyllilega skilið að vera valinn maður ársins.
Líklega mætti best líkja þeirri viðurkenningu við Nóbelsverðlaun Obama.
Það er algjörlega óvíst, eiginlega frekar ólíklegt, að hann fái nokkru áorkað, en við getum þó alla vega VONAÐ.

Málið er, að Steingrímur er að REYNA.
Hann tók við gjörsamlega tapaðri stöðu, en hann er samt að berjast.
Þjóðarskútunni var siglt all hroðalega í strand, af gjörsamlega vanhæfum blindfullum skipsstjórnendum, sem flúðu manna fyrstir í bátana.
Steingrímur var í hæsta lagi háseti á dallinum, en það er hann sem stendur keikur í brúnni, þótt brimskaflarnir gangi yfir hálfsokkinn dallinn.

Það þýðir hins vegar ekkert fyrir okkur hin, að liggja vælandi ofan í lest og bíða eftir björgun.


mbl.is Tók við af „búskussa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Stefán Þingeyingur

Höfundur

Stefán Jónsson
Stefán Jónsson
Skoðanir höfundar eru óvéfengjanlegar. Það eru engar stafsetningarvillur á síðunni, aðeins stílbrögð.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband